Bílpróf-ökukennsla

Þegar 16 ára aldri hefur verið náð getur ökunám hafist.

Fyrst þarf að hafa samband við ökukennara, sem upplýsir um framvindu námsins og hvernig það gengur fyrir sig.
Áður en hægt er að sækja um æfingaleyfi þarf nemandi að fara í 10 kennslutíma hjá ökukennara og í ökuskóla 1 (Ö-1), en ökuskóla 1 er hægt að taka á netinu eða hjá Ökuskólanum í Mjódd.
Þeir nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu sækja um æfingaleyfi hjá Sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu Hlíðarsmára 1, Kópavogi. Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins sækja um æfingaleyfi hjá sýslumanni í sinni heimabyggð.
Þegar þessu er lokið getur æfingaakstur hafist. Hann fer fram með foreldri/foreldrum eða öðrum sem uppfylla ákveðin skilyrði, eru eldri en 24 ára og hafa haft bílpróf í 2 ár.

Um 1-2 mánuði fyrir 17 ára afmælisdaginn (eða fyrr) er tímabært að fara í ökuskóla 2 (Ö-2). Hann er hægt að taka hann á netinu eða hjá Ökuskólanum í Mjódd. Í framhaldi af því er pantað skriflegt ökupróf hjá Frumherja hf., Þarabakka 3, Rvk. , í síma 570-9070, eða með því að senda tölvupóst á okuprof@frumherji.is. Frumherji annast ökupróf fyrir Samgöngustofu.

Næst þarf að fara í ökuskóla 3 (Ö-3)

sem er æfing í skrikakstri (hálkuakstri), upplifun í veltibíl og bóklegt nám því tengt. Fyrir nemendur á Höfuðborgarsvæðinu fer Ö3 fram á sérstöku æfingasvæði á Álfhellu Hafnarfirði. (finna má staðsetningu á ja.is) Taka þarf lágmark 12 kennslutíma áður en farið er í Ö3. Ljúka þarf við Ö3 áður en farið er í verklegt (aksturs) ökupróf.

Að þessu loknu er farið í síðustu verklegu (aksturs) tímana hjá ökukennaranum. Að þeim loknum er farið í skriflegt ökupróf hjá Frumherja hf. Þarabakka 3, Rvk. sími 570-9070 (má taka 2 mán. fyrir 17 ára afmælisdaginn). Þegar nemandi hefur staðist skriflega ökuprófið sér ökukennarinn um að panta tíma í verklegt bílpróf, en í það má fara allt að 2 vikum fyrir 17 ára afmælisdaginn.
Eftir að verklega bílprófinu er náð, afhendir prófdómari nemandanum ökuskírteinið (sem gildir frá 17 ára afmælisdeginum hafi honum ekki verið náð) og nýji ökumaðurinn getur hafið akstur á eigin vegum, að sjálfsögðu með ýtrustu varúð og gætni.
Ef frekari upplýsingar óskast þá hringið í s: 892-9171 eða sendið tölvupóst á krk@simnet.is

Bílpróf-ökukennsla