Spurt og svarað

Algengar spurningar um ökunám og svörin við þeim.

 

Hvenær get ég byrjað og hvert leita ég

Ökunám getur hafist við 16 ára aldur. Skynsamlegt er að ætla sér góðan tíma í ökunámið því að tímaskortur og akstur fara illa saman. Hvenær ökunám er hafið fer eftir ýmsum þáttum svo sem árstíð, búsetu, efnahag, persónulegum aðstæðum eða löngun viðkomandi til að aka. Fyrsta skrefið í ökunáminu er að ræða við ökukennara sem þú velur sjálfur. Um leið og nám hefst þarf að sækja um námsheimild til sýslumanns. Það er gert með því að fylla út umsókn um ökuskírteini.

Hvar sæki ég um ökuskírteini/námsheimild

Sýslumenn annast útgáfu ökuskírteina í umboði ríkislögreglustjóra. Á stór Reykjavíkursvæðinu er sótt um ökuskírteini á skrifstofu sýslumanns höfuðborgarsvæðisins að:

Hlíðasmára 1, 201 Kópavogi

Á landsbyggðinni:

Á skrifstofu viðkomandi sýslumanns
Athugið að umsókn um æfingaakstur og leiðbeinendaþjálfun er skilað inn á sama stað.

Hvar finn ég umsóknareyðublöð

Umsóknareyðublaðið er aðgengilegt á vef lögreglunnar. Hægt er að fylla það út í tölvu og prenta út áður en farið er til sýslumanns. Hér má finna upplýsingar um hvað skal fylgja umsókninni.

Hvað á ég að spyrja ökukennarann um
Spurðu ökukennarann hvernig kennslunni sé háttað, hvenær hann kenni, hvers konar kennsluáætlun hann fylgi og hvaða bækur og námsgögn séu notuð, í hvaða ökuskóla hann vilji að þú farir á bóklegt námskeið, hvað kennslutíminn kosti og hvaða greiðslukjör séu í boði.
Hvað er ökunámsbók

Ökunámsbók er samskipta- og upplýsingabók allra þeirra er koma að ökunámi. Við upphaf kennslu skal ökukennari afhenda ökunema ökunámsbók. Hún skal sýna feril ökunáms frá upphafi þar til ökupróf er staðið. Bókin er eign nemandans og hann geymir hana á meðan á ökunámi stendur. Hún skal höfð með í alla kennslutíma, bóklega og verklega og hana skal leggja inn til sýslumanns ef sótt er um æfingaleyfi sem og við komu í próf. Prófdómarar votta í ökunámsbók staðið skriflegt og verklegt ökupróf.

Hvað þarf ég að taka marga ökutíma

Afar mismunandi er hversu marga ökutíma nemandi þarf. Algengur tímafjöldi er á bilinu 19-25 tímar en samkvæmt námsskrá á tímafjöldinn að vera að lágmarki 17-25 tímar. Við leggjum áherslu á að gott ökunám er fyrst og fremst ódýr fjárfesting einstaklings í eigin umferðaröryggi.

Hvað er gert í ökuskóla eða ökugerði?

Á námskeiðum er farið yfir grundvallaratriði er snerta skilning á umferðinni, helstu umferðarreglur, umferðarmerki, umferðarsálfræði, verkefni unnin o.fl. Einnig er aðstoðað við undirbúning ökuprófs. Lengd námskeiða er 25 kennslustundir og er þeim skipt í fyrsta hluta (Ö1), annan hluta (Ö2) og þriðja hluta (Ö3). Ætlast er til að Ö1 sé tekinn fyrir æfingaakstur með leiðbeinanda og Ö2 áður en farið er í skriflega prófið. Ö3 fer fram í ökugerði að jafnaði stuttu fyrir próf, en í undantekningatilvikum er hægt að taka Ö3 á fyrstu þremur árunum eftir að bráðabirgðaskírteini er fengið en þó áður en fullnaðarskírteini er gefið út. Í ökugerði er líkt eftir aðstæðum þar sem veggrip minnkar og reynt á samspil hraða og veggrips með því markmiði að neminn geri sér ljóst hversu auðvelt og fyrirvaralaust er hægt að missa stjórn á bifreið. Fjallað er sérstaklega um öryggis- og verndarbúnað bifreiða, áhrif áfengis og annarra vímugjafa sem og þreytu á aksturshæfni.

Hvað er leiðbeinandaþjálun eða æfingaakstur?
Leiðbeinandaþjálfun er í raun viðbótarþjálfun umfram þá kennslu sem þú færð hjá ökukennaranum. Ef þú ætlar að notfæra þér þennan valkost undirbýr ökukennari þig fyrir æfingaaksturinn, staðfestir að ökunemi sé tilbúinn í æfingaakstur og ákveður hvenær hann skuli hefjast. Ökukennarinn mun síðan fylgjast með hvernig gengur hjá ykkur m.a. með því að taka einn og einn tíma á þjálfunartímabilinu. Eftir æfingaaksturinn tekur ökukennarinn aftur við og undirbýr þig fyrir ökuprófið.

Umsókn um æfingaleyfi er í ökunámsbók (B réttindi á bls. 7).

Hvar finn ég upplýsingar um punktastöðu?
Upplýsingar um punktastöðu er hægt að fá með því að mæta á næstu lögreglustjóraskrifstofu eða næstu lögreglustöð og framvísa persónuskilríkjum.
Hvað kostar ökunámið?
Það má gera ráð fyrir að kostnaður við ökunámið verði um 200 þúsund krónur. Þá er meðtalið námskeið í ökuskóla, verklegir kennslutímar, ökugerði, kennslubók, verkefni, myndir, próf- og skírteinisgjöld. Þó skal hafa í huga að einstaklingar eru misjafnir og þurfa því á mismörgum ökutímum að halda.
Hvað með fötlun eða lestrarörðuleika?
Ef fatlaðir hafa næga hreyfigetu til að þeir geti stjórnað bíl af öryggi með hjálpartækjum þá er þeim mögulegt að öðlast ökuréttindi. Slíkt er þó háð mati læknis og annarra sem athuga hvernig hjálpartæki vinna í stjórn bílsins. Dæmi um lestrarörðugleika er lesblinda (dyslexía), torlæsi, ólæsi eða tungumálaerfiðleikar. Þeir sem eiga í slíkum vandamálum fá aðstoð við lestur í skriflegum prófum.
Hvað ef ég kann ekki íslensku?
Í ákveðnum ökuskólum eru bókleg námskeið haldin á ýmsum tungumálum eftir þörfum. Námsgögn og próf eru líka til á ýmsum tungumálum.
Hvenær og hvar er ökupróf pantað?
Þegar áskildu ökunámi er lokið með fullnægjandi árangri er hægt að panta tíma í ökupróf í samáði við ökukennara. Skriflegt próf má fara fram allt að tveimur mánuðum og verklegt próf allt að tveimur vikum áður en aldursskilyrði til að fá ökuréttindi í viðkomandi flokki er náð. Próf er pantað hjá Frumherja hf. sem annast framkvæmd ökuprófa samkvæmt samningi við Samgöngustofu.
Hvernig fer ökuprófið fram?
Ökuprófið samanstendur af krossaprófi, munnlegu prófi og akstursprófi. Krossaprófið er tekið í hópprófi og er svarað á sérstök svarblöð. Spurt er um efni sem þú hefur lært í ökuskólanum og hjá kennaranum en niðurstöður úr því prófi færð þú strax í próflok. Í munnlega prófinu sem tekið er í bílnum áður en farið er í aksturinn er spurt um ýmislegt sem snertir bílinn sjálfan eins og gaumljós, stjórn- og öryggistæki og hluti sem tengjast viðhaldi bílsins. Í akstursprófinu er ekið um ákveðnar prófleiðir og prófdómari skráir niður plúsa og mínusa og reiknar síðan í lokin stig próftakans. Ef heildarstigatala fer undir 80 hefur próftaki ekki staðist prófið.
Hvað fellst í almennum ökuréttindum?
Eftir að hafa staðist prófið færðu ökuskírteini útgefið. Almenn ökuréttindi gefa rétt til að aka fólks- eða sendibifreið sem er ekki þyngri en 3.500 kg og með sæti fyrir mest 8 farþega auk ökumanns. Bifreiðin má vera með tengdan eftirvagn eða tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd, eða sem er meiri en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, en þá má leyfð heildarþyngd beggja ökutækja ekki vera meiri en 3.500 kg samtals. Ennfremur máttu aka léttu bifhjóli (skellinöðru) og bifhjóli á þremur eða fleiri hjólum. Sá sem er yngri en 21 árs má þó ekki stjórna bifhjóli á þremur hjólum sem er aflmeira en 15 kW. Einnig máttu aka torfærutæki t.d. vélsleða, dráttarvél og vinnuvél í umferð en þó ekki vinna á hana, til þess þarf vinnuvélaréttindi.